Íslendingar virðast vera talsvert bjartsýnni nú á efnahags og atvinnulífið en þeir voru í síðasta mánuði, segir greiningardeild Glitnis.

?Væntingavísitalan hækkaði um 22,6% á milli mánaða, sem er umtalsverð hækkun, og stendur vísitalan nú 108,0 stigum en var í 88,1 stigum í júlí. Táknar þetta að fjöldi þeirra sem eru bjartsýnir er á ný meiri en fjöldi þeirra sem eru svartsýnir, en þegar vísitalan stendur í 100 stigum erum hóparnir jafnstórir," segir greiningardeildin.

?Tiltrú neytenda virðist mjög sveiflukennd um þessar mundir en aukin bjartsýni gæti skýrst af gengishækkun krónunnar að undanförnu, jákvæðum fréttum úr fjármálageiranum og hækkun á hlutabréfamarkaði. Tiltrú neytenda er engu að síður talsvert minni en fyrir ári síðan og hefur væntingavísitalan lækkað um 19,5% frá sama tíma í fyrra. Rímar það við horfur á minni hagvexti á næsta ári," segir greiningardeildin.

Hún segir að allar undirvísitölur hækka á milli mánaða en þó misjafnlega, þannig hækkar mat á atvinnuástandinu minnst.

?Karlar eru sem fyrr bjartsýnni á horfur í efnahagslífinu og hefur hækkandi aldur neikvæð áhrif á væntingar Íslendinga á gang efnahagslífsins. Um 29% svarenda telja að efnahagsástandið verði verra eftir sex mánuði en 20% telja að það verði betra. Um 19,9% svarenda telja að atvinnumöguleikar sínir verði minni eftir sex mánuði en 9,7% að þeir verði betri. Athyglisvert er að 17,5% svarenda telja að tekjur sínar verði meiri eftir sex mánuði á móti 14,1% sem telja að tekjur sínar verði lægri," segir greiningardeildin.