„Rafmagnsfyrirtækin hafa fengið línumenn frá Flórída og fleiri rafmagnsveitum í Bandaríkjunum til að saga tré og laga línur þegar veðurhamurinn hefur gengið yfir. Síðan munu þeir vinna sig upp NA-ströndina,“ segir Jón Emil Claessen Guðbrandsson sem býr með fjölskyldu sinni í Brooklyn-hverfinu í New York. Hann bíður þess að fellibylurinn nái landi ýmist í kvöld eða í fyrramálið og þeim hamförum sem óttast er að fylgi honum á austurströnd Bandaríkjanna.

Hann minnist þess að þegar fellibylurinn Irene gekk yfir austurströndina í fyrra hafi víða verið rafmagnslaust allt upp undir einn mánuð. Hann bendir þó á að Irene hafi verið öðruvísi að því leyti að þá var þungt yfir og úrkoma. Nú sé það hins vegar vindurinn og háflóðið sem geti gert illa verra.

Truflar forsetaslaginn

Lýst hefur verið yfir hættuástandi vegna fellibylsins við strandlengjuna austanverða og hafa 400 þúsund manns sem þar búa verið beðin um að yfirgefa heimili sín. Þá voru kauphallar vestanhafs lokaðar í dag og verða þær það líklega á morgun. Almenningssamgöngur eru í lamasessi, verslanir lokaðar víða, s.s. í New York og fólk beðið um að halda sig heima.

Þá hafa þeir Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Mitt Romney, forsetaframbjóðandi Repúblikana, þurft að breyta áætlunum sínum vegna veðurofsans og slegið fundum sínum í Ohio á frest. Obama sneri aftur til Hvíta hússins í Washington og bað hann íbúa á austurströnd Bandaríkjanna til að hlýða tilskipunum um að bíða ekki á heimilum sínum á meðan veðurofsinn gengur yfir heldur fara í öruggt skjól.

Jón Emil telur Obama geta nýtt sér veðurhaminn í kosningaslagnum, þ.e.a.s. ef hann leysi leiðtogahæfileika sína úr læðingi og stýri aðgerðum sem skili árangri. Þetta telur hann koma Mitt Romney illa enda hafi hann ekki sambærilegt umboð og Obama til að láta ljós sitt skína.