Íslenski hlutabréfamarkaðurinn greiðir lægri arð en hlutabréfamarkaðir bæði austan hafs og vestan. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka nam arður sem hlutfall af markaðsvirði 0,83% hjá félögunum í Úrvalsvísitölunni á síðasta ári samanborið við 2,64% meðaltal helstu vísitalna í Bandaríkjunum og Evrópu. Arðgreiðsla S&P 500 vísitölunnar, sem er talin gefa besta mynd af fjölbreytileika bandarískra fyrirtækja, nam tæpum 2% fyrir síðasta ár en S&P 300 Europe greiddi 3% arð. Kauphallirnar á Norðurlöndum greiddu að meðaltali 2,8% í arð.

Þessi lága arðgreiðsla getur verið ágætis vísbending um að markaðurinn sé orðinn of hátt metinn, segja sérfræðingar. Hún kann einnig einfaldlega að skýrast af því að vaxtarmöguleikar íslenskra fyrirtækja séu það góðir að heppilegra sé fyrir hluthafana að láta arðinn ávaxtast áfram inni í fyrirtækjunum í stað þess að fá hann greiddan út. Það er tvennt sem vinnst við það. Annars vegar frestast skattgreiðslurnar af arðinum og hins vegar verður arðurinn meiri en hann hefði ella orðið.

Það sem einnig kann að skýra lágar arðgreiðslur hér á landi er einfaldlega lítil eftirspurn hluthafa eftir arðgreiðslum. Gengishagnaðurinn á síðustu árum hefur verið það mikill að arðgreiðslurnar hafa ekki verið nema lítið brot af heildarávöxtun íslenskra hluthafa. Þessi staða kann þó að breytast um leið og markaðurinn hættir að vaxa jafn hratt eða jafnvel lækka.

Ítarleg fréttaskýring í Viðskiptablaðinu í dag.