*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 21. nóvember 2011 11:24

Íslensk hugbúnaðarlausn seld til 45 landa

Innanhúslausn hjá TM Software er nú orðin að vöru sem búið er að selja til rúmlega eitt þúsund viðskiptavina.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Hugbúnaðarfyrirtækið TM Software, dótturfélag Nýherja, hefur selt eigið tímaskráningar- og verkbókhaldskerfi til rúmlega eitt þúsund viðskiptavina í yfir 45 löndum á aðeins þremur árum. Meðal viðskiptavina eru fjölmörg stórfyrirtæki og stofnanir; Kauphöllin í Lundúnum, Deutsche Bank og Intel. Öll sala á lausninni á sér stað í gegnum netið, að því er fram kemur í tilkynningu frá Nýherja.

Þar segir að Tempo sé viðbót við verkbeiðna- og þjónustukerfið JIRA frá ástralska hugbúnaðarfyrirtækinu Atlassian og geri notendum kleift að tengja við tímaskráningar og koma í veg fyrir tvískráningar beiðna og reikninga. Tempo veiti meðal annars betri yfirsýn yfir mannafla og áætlanagerð, auðveldar tímaskráningar og hefur yfir að ráða ferli yfir inneimtu og tengimöguleika við önnur kerfi svo dæmi séu tekin.

Pétur Ágústsson vörustjóri Tempo hjá TM Software segir að sala á Tempo-leyfum hafi margfaldast á milli ára. Þetta sé vonum framar. Markaðsherferð og sala hefur einungis farið fram í gegnum netið.

Tempo var upphaflega innanhússlausn hjá TM Software.

Stikkorð: Nýherji TM Software