Það voru íslensk stjórnvöld, en ekki NATO, sem ákváðu að Bretar skyldu ekki sinna loftvarnareftirliti hér á landi undir lok árs eins og áætlað hafði verið.

Ákvörðunin var tekin af tveimur ástæðum, annars vegar vegna milliríkjadeilu landanna vegna Icesave málsins og hins vegar var um hreina sparnaðaraðgerð að ræða.

Þetta hefur Viðskiptablaðið eftir heimildum bæði innan NATO og eins íslensku stjórnsýslunnar.

Eins og kunnugt er tilkynntu Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra 14. nóvember s.l. að Bretar myndu ekki sinna eftirliti hér við land í desember eins og áætlað hafði verið. Þau sögðu bæði að þetta hefði verið ákveðið af NATO.

„Það er hætt við þessar æfingar af ástæðu sem NATO getur best útskýrt,“ sagði Geir á blaðamannafundi sama dag og ítrekaði að íslensk stjórnvöld hefðu ekki farið fram á þessa ákvörðun.

Þá ítrekaði Ingibjörg Sólrún einnig, á sama fundi, að þetta hefði verið ákvörðun NATO.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .