Íslenska auglýsingastofan hefur á síðustu vikum bætt við sig þremur nýjum starfsmönnum. Jónas Valtýsson hefur verið ráðinn sem grafískur hönnuður, Júlía Skagfjörð Sigurðardóttir hefur hafið störf sem netmarkaðsráðgjafi og Kári Sævarsson tók við stöðu Associate Creative Director.

Jónas Valtýsson útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2008. Hefur hann starfað sem hönnuður á Íslandi og í Bretlandi, þar sem hann starfaði fyrir Wieden + Kennedy og Red Design. Jónas er annar stofnenda Stúdíó Erla og Jónas.

Júlía Skagfjörð Sigurðardóttir hefur lokið BS-prófi í viðskiptafræði og vinnur að meistaraprófsritgerð í markaðsfræði við Háskóla Íslands. Áður starfaði hún við verkefnastjórnun hjá Já hf., við kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands og sinnti kennslu við Listaháskóla Íslands.

Kári Sævarsson er með BA-próf í ítölsku og MA-próf í táknfræði frá Háskólanum í Árósum. Hann hefur starfað við auglýsingar frá árinu 1999, fyrst sem hönnuður en síðast sem texta- og hugmyndasmiður á Hvíta húsinu frá árinu 2007.