„Ég er búinn að fylgjast með íslenska kerfinu síðastliðin tíu ár. Það sem hefur komið mér óvart er hversu flókið það er orðið,“ segir Arnold Verbeek, einn af fimm alþjóðlegum ráðgjöfum sem komu að gerð jafningjamats um stöðu vísinda og nýsköpunar á Íslandi. Drög að matinu voru lögð fram á Rannsóknarþingi sem haldið var síðastliðinn föstudag.

„Það væri í sjálfu sér hægt að bera lítið land eins og Ísland saman við stórt alþjóðlegt fyrirtæki,“ segir Verbeek. „Við gerum það í skýrslunni og nefnum Prada sem dæmi. Líkt og stórt alþjóðlegt fyrirtæki þá þurfið þið góðan kaftein á skipið en hluti af vandanum hér er að það eru svo margir kafteinar á skipinu. Ykkur tekst ekki að beina ykkur í eina átt.“

Þarf samtal á milli atvinnulífsins og akademíunnar

„Það kom mér einnig á óvart hvað það er lítið samtal á milli akademíunnar og atvinnulífsins. Það er stór hluti af vandamálinu. Það er mikið af góðum fyrirtækjum á Íslandi en það virðist ekki vera nægur vilji til að bæta við fleiri fyrirtækjum sem byggja á tækniþekkingu. Það er ekki lögð nægileg áhersla á nýsköpun. Þetta kemur mér á óvart vegna þess að þið hafið svo margt sem er frábært og þið getið byggt á en þið eruð ekki að því,“ segir Verbeek.

Ítarleg úttekt um stöðu rannsóknar og þróunar á Íslandi ásamt viðtali við tvo höfunda jafningjamatsins verður birt í næsta hefti Viðskiptablaðsins sem kemur út á morgun.