Sænski netbankinn Folkia hefur lokið hlutafjáraukningu sinni í Noregi en félagið safnaði 110 milljónum norskra króna í hlutafjárútboði eða 1,2 milljörðum króna. Um leið hefur Kredittillsynet, norska fjármálaeftirlitið, veitt Folkia leyfi til þess að stunda bankastarfsemi þar í landi. Folkia hefur keypt félagið Folkefinans og hyggst flytja höfuðstöðvar sínar til Noregs en stefnt er að skráningu félagsins þar.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru íslenskir fjárfestar áberandi í hluthafahópnum og mun Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis, vera meðal hluthafa. Hörður Bender stofnandi bankans sagðist ekki geta gefið upplýsingar um hluthafahópinn að svo stöddu og ekki náðist í Bjarna við vinnslu fréttarinnar. Hörður er stærsti hluthafinn með 15% hlutafjár en hann er einnig eigandi fjárfestingafélagsins Stiklu sem á hlut í XG Technology og smáverslanakeðjunni Oops.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu.