Íslenskir fjárfestar hafa verið nokkuð áberandi á kauphliðinni í sænska bankanum Nordea undanfarna daga. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa íslenskir bankar og fjárfestingasjóðir verið að taka stöðu í Nordea undanfarna daga og vikur og hafa náð að hreyfa við markaðinum en bréf félagsins hafa hækkað lítillega síðustu daga.

Samkvæmt heimildum blaðsins hafa Exista, Kaupþing, FL Group og Glitnir tengst þessum kaupum.

Sænska ríkið er lang stærsti hluthafi í Nordea í dag með 19,9% hlut. Hægri stjórnin í Svíþjóð hefur tilkynnt að hluturinn verði seldur sem gerir bankann að spennandi fjárfestingarkosti segja heimildir blaðsins. Nordea er stærsta fjármálafyrirtæki Norðurlandanna og ljóst að bankinn mun gegna lykilhlutverki í þeirri samþjöppun sem spáð er að eigi sér stað á norrænum fjármálamarkaði á næstunni. Nordea er í 37. sæti á lista yfir stærstu banka heimsins en en markaðsvirðið er nálægt 2.900 milljörðum króna. Heimildir blaðsins segja að Nordea sé að mörgu leyti áhugaverður kostur fyrir yfirtöku en vitaskuld eru efasemdir um að íslenskir fjárfestar ráði við það. Stöðutaka nú gæti hins vegar fært þeim nokkurn ávinning.

Sampo á nú rúmlega 2% hlut í Nordea, en Exista keypti nú nýverið 15% hlut í Sampo. Sampo hefur aukið hlut sinn jafnt og þétt síðan í haust en félagið er með 380 milljarða króna í sjóðum eftir kaup á bankastarfsemi sinni til Danske Bank.

Á ársfundi Straums-Burðarás var upplýst að félagið ætti 0,1% í Nordea og haft hefur verið eftir Friðrik Jóhannssyni, forstjóra Straums, í sænskum fjölmiðlum að Nordea sé áhugaverður fjárfestingakostur og að Straumur ætli sé frekari fjárfestingar á Norðurlöndunum og kaup þeirra í Nordea sé hluti af því.