Gengið hefur verið frá kaupum Ísmars á Fálkanum. Alls starfa 32 starfsmenn hjá félögunum og er ekki gert ráð fyrir að starfsfólki fækki í tengslum við kaupin, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Ísmar er í 51% eigu Sjávarsýnar ehf. og 49% eigu Framtakssjóðsins Freyju.

Ísmar mun á næstu vikum flytja inn í starfsstöð Fálkans á Dalvegi 10-14 í Kópavogi þar sem félögin munu nýta sameiginlega aðstöðu fyrir verslun, vörugeymslu og skrifstofur. Ísmar og Fálkinn verða þó rekin í sitt hvoru lagi. Gunnar Sverrisson framkvæmdastjóri Ísmars verður framkvæmdastjóri beggja félaga.

„Nú eru tvö ár síðan ég tók við sem framkvæmdastjóri Ísmars og hef notið þess að starfa með þeim öfluga hóp sem þar starfar. Það er því mikil fagnaðarefni að stíga nú þetta stóra skref sem tryggir áframhaldandi framþróun Ísmars og Fálkans og fá til liðs við okkur frábæran hóp reynslumikilla starfsmanna Fálkans. Það eru spennandi tímar framundan og verður gaman að vinna með frábæru starfsfólki, viðskiptavinum og birgjum í að leiða uppbyggingu innviða á Íslandi á komandi árum,“ er haft eftir Gunnari.

Félögin starfa bæði að mestu á fyrirtækjamarkaði en kjarni starfseminnar er þjónusta, ráðgjöf og sala á tækni- og vélbúnaði til m.a. verkstæða, stóriðju, opinberra aðila, útgerða, verktaka, verkfræðistofa og orkufyrirtækja.

Ísmar hefur á undanförnum árum lagt áherslu á sölu, ráðgjöf og þjónustu á tæknibúnaði, svo sem mælitækjum og vélstýringum sem nýta sér GPS tækni, lasertæki, búnað til sjómælinga, hitamyndavélar, fjarskiptabúnað, loftræsibúnað og hússtjórnarkerfi. Áherslur Fálkans hafa verið á sölu og þjónustu á tæknivörum tengdum bíla- og vélahlutum, véltæknivörum og raftæknivörum.

Bæði Ísmar og Fálkinn bjóða vörur frá leiðandi framleiðendum á hverju sviði. Stærstu birgjar félaganna eru Schneider Electric, Trimble, ZF, Flakt Group, Timken, Schaeffler Group; Motorola, Gifas, Sulzer, FLIR, Teledyne, Vent-Axia, Signode og Optibelt.