Ekki er útséð um hvort (gamli) Landsbanki Íslands krefst gjaldþrotaskipta á Eignarhaldsfélaginu ISP ehf. sem er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiganda 365 miðla. Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi slitastjórnar bankans, segir að menn vilji ekki tjá sig um málið að svo stöddu og að það sé til skoðunar. Á meðan geti bankinn ekki tjáð sig um málið.

Á seinni hluta síðasta árs krafðist slitastjórn Landsbankans þess að bú ISP ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Fyrirtaka málsins átti að vera í byrjun októbermánaðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Krafa bankans hljóðaði upp á rúmlega tvo milljarða króna. Ekkert varð hins vegar af gjaldþrotaskiptum félagsins og greindi fréttastofa Rúv frá því síðar í september 2011 að gamli Landsbankinn hafi gefist upp á að innheimta kröfur sínar. Í samtali við Viðskiptablaðið sagðist Páll ekki geta staðfest framvindu málsins.

Eignarhaldsfélagið ISP hélt meðal annars um 101 Capital ehf. og IP Studium ehf., sem á 12,5% í 365 miðlum. IP Studium var fært yfir í félag skráð í Lúxemborg á árinu 2008. Það heitir Edmound Holding. Samkvæmt gjaldþrotalögum er hægt að krefjast riftunar á gjörningum fjögur ár aftur í tímann. Því er ljóst að ætli Landsbanki Íslands eða aðrir kröfuhafar ISP að rifta einhverjum viðskiptum þarf það að gerast á næstu mánuðum.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.