Gjaldeyrisstaða bankanna, það er eignir að frádregnum skuldum í erlendum gjaldeyri, veiktist um tæpa 19 milljarða í apríl og nam hún tæplega 80 milljörðum króna um síðustu mánaðamót, segir greiningardeild Glitnis.

Tölur frá Seðlabanka segja það jafngildi 14,6% af samanlögðu eigin fé bankanna en nam rúmum 19% í mars.

Reglur Seðlabanka eru á þá vegu að hver banki um sig að halda hlutfallinu innan við 30% hvort sem um er að ræða jákvæða eða neikvæða stöðu.

Heimilt er að víkja frá þessari reglu ef tilgangurinn er að verja eiginfjárhlutfall viðkomandi banka fyrir gengisáhrifum, segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir ólíklegt að einhverjir bankanna hafi þannig verið nálægt, eða jafnvel yfir, ofangreindu hlutfalli þegar jákvæð staða var sem stærst í febrúar og mars en ekki liggur fyrir sundurliðun eftir einstökum bönkum.

Fyrir nóvember síðastliðinn nam staðan hins vegar jafnan örfáum prósentum, en þá varð mikil og snörp hækkun á jákvæðri gjaldeyrisstöðu.

Tölur um gjaldeyriseignir- og skuldir bankanna endurspegla annars vel þá grundvallarbreytingu sem orðið hefur á starfsemi þeirra og umhverfi, segir greiningardeildin.

Fyrir tíu árum síðan námu gjaldeyriseignir bankanna þannig að meðaltali 52 milljörðum króna en skuldirnar 50 milljörðum króna.

Fimm árum síðar, eða árið 2001, voru eignirnar að meðaltali 602 milljarðar króna en skuldirnar 603 milljarðar og höfðu þessir liðir því rösklega tífaldast á fimm árum.

Meðalstaðan það sem af er þessu ári er 4.777 milljarðar króna á eignahlið og 4.694 milljarðar króna ef litið er á heildarskuldir, og jafngildir það nálega áttföldun á fimm ára tímabili.

Hér er reyndar bæði tekið inn í reikninginn staða nú og framvirk staða bankanna, en hlutfallið þar á milli hefur ekki breyst verulega á þessu tímabili. Því ættu fyrrnefndar stærðir að gefa hugmynd um þá miklu aukningu í umsvifum bankanna sem orðið hefur undanfarinn áratug, segir greiningardeildin.