Jenið veiktist gagnvart helstu myntum á gjaldeyrismarkaði í gær í kjölfar þess að Japansbanki ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum í 0,5%. Þrátt fyrir að sú ákvörðun hafi verið viðbúin - meðal annars í ljósi þess að þingkosningar þar í landi fara fram 29. júlí - kom það greiningaraðilum engu að síður á óvart að aðeins einn af átta stjórnarmönnum bankans greiddi atkvæði gegn því að halda vöxtum óbreyttum. Af þeim sökum telja margir að minni líkur sé nú en áður á því að Japansbanki hækki stýrivexti í ágúst næstkomandi.

Adrian Foster, sérfræðingur hjá fjárfestingarbankanum Dresdner Kleinwort, bendir á það í samtali við Financial Times að þrír stjórnarmenn bankans hefðu greitt atkvæði með stýrivaxtahækkun áður en meirihluti stjórnarinnar samþykkti að lokum að hækka vexti í 0,5% síðastliðinn febrúarmánuð. "Stýrivaxtahækkun á næsta fundi bankans er því ekki jafn sennileg", segir Foster.

Í tilkynningu sem seðlabankastjóri Japansbanka, Toshihiko Fukui, sendi frá sér í gær í kjölfar stýrivaxtaákvörðunarinnar var lítið gefið upp um hvers má vænta á næsta fundi stjórnar bankans. Fukui sagði þó að hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi ársins - sem flestir greiningaraðilar búast við að verði fremur veikur - muni ekki hafa úrslitaáhrif á þeim fundi.

Peningamálastefna Japansbanka hefur verið umdeild á meðal hagfræðinga en margir telja að stýrivaxtahækkanir bankans séu ótímabærar sökum þess að japanska hagkerfið sé ekki enn fyllilega búið að ná sér eftir þá stöðnun sem ríkt hefur frá því í byrjun tíunda áratugarins. Einnig hefur verið á það bent að einkaneysla almennings hafi ekki tekið við sér þrátt fyrir að fólk hafi meira fé á milli handanna en áður. Flestir hagfræðingar eru hins vegar á þeirri skoðun að 0,5% stýrivextir hafi að mjög takmörkuðu leyti neikvæð áhrif fyrir áframhaldandi hagvöxt í Japan, sökum þess að flest fyrirtæki þar í landi eiga mikið fjármagn sem þýðir að þau hafa litla þörf fyrir að taka lán í bönkum.