Sendiráð Íslands í Tókýó efndi, í samvinnu við Fjárfestingastofu og japanska kvikmyndadreifingafyrirtækið Cinematrix, til fundar í byrjun þessa mánaðar þar sem kynntir voru kostir og hvatar sem erlendum kvikmyndaframleiðendum standa til boða ef þeir kvikmynda á Íslandi.

Greint er frá þessu í Stiklum, vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Fundurinn, sem fulltrúar 15 japanskra kvikmyndaframleiðenda sóttu, var haldinn í tengslum við íslensku
kvikmyndahátíðina Bíó06 sem fór fram í Tókýó dagana 4. til 10 mars.

Á fundinum hélt Þórður H. Hilmarsson, framkvæmdastjóri Fjárfestingastofu, erindi þar sem hann gerði ítarlega grein fyrir helstu kostum og fjárhagslegum hvötum fyrir þá kvikmyndaframleiðendur sem vinna kvikmyndir á Íslandi. Hann sagði stjórnvöld leggja sig fram um að skapa góð skilyrði fyrir slíka starfsemi á Íslandi, einkum með skattaívilnun.
Þórður gerði einnig grein fyrir reglum um endurgreiðslu á 12% útlagðs kostnaðar við kvikmyndagerð.

Auðvelt að leysa vandamál

Kvikmyndagerðarmennirnir Dagur Kári Pétursson leikstjóri og Valdís Óskarsdóttir klippari sögðu frá reynslu sinni af kvikmyndaframleiðslu
á Íslandi. Dagur Kári nefndi tvö atriði sem að hans mati skapa Íslandi sérstöðu að því er kvikmyndatöku varðar. Fyrra atriðið var að auðvelt væri að finna nýtt myndefni eða bakgrunn, sem ekki hefði verið myndaður áður. Seinna atriðið, sem Dagur Kári nefndi, var hversu auðvelt væri að leysa
öll vandamál er kæmu upp við töku kvikmyndar. Íslendingar væru boðnir og búnir til að aðstoða og nefndi hann nokkur dæmi um það. Slíkri hjálpsemi hefði hann ekki kynnst erlendis við vinnu sína.
Valdís Óskarsdóttir, klippari og ráðgjafi við Kvikmyndamiðstöð Íslands, kynnti framlag stofnunarinnar til kvikmyndagerðar á Íslandi.