Jive Software Inc., sem framleiðir sérsmíðaða læsta samfélagsmiðla sem starfsmenn stórra fyrirtækja nota í samskiptum sín á milli, hefur keypt íslenska sprotafyrirtækið Clara fyrir upphæð sem jafngildir milljarði íslenskra króna. Frá þessu er sagt í Fréttablaðinu í dag.

Clara var stofnað í Reykjavík árið 2008 og sérhæfir sig í að greina texta og draga út upplýsingar til að auðvelda yfirsýn yfir umræðu um fyrirtæki, vörumerki og einstaklinga. Í mars 2011 var opnuð sölu- og markaðsskrifstofa í Kísildalnum í Kaliforníu.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í febrúar síðastliðnum sagði  Gunnar Hólmsteinn framkvæmdastjóri að Clara hefði hingað til einbeitt sér að samfélögum í kringum tölvuleiki en nú væri stefnan að nýta greiningartólin í öðrum hluta skemmtanaiðnaðar og í kringum fjarskiptafyrirtæki í Bandaríkjunum.

Áretting: „Vegna þess, sem fram kemur um kaupverð í fréttinni vill Jive software árétta: Mikilvægt er að benda á að um er að ræða samning um greiðslu í bæði reiðufé og hlutabréfum. Nákvæmt verð kemur reyndar ekki fram í fréttinni heldur einungis áætlað verð í íslenskum krónum. En eina nákvæma talan sem gefin var upp var að kaupverð vegna viðskiptanna með CLARA og StreamOnce (sem Jive keypti á sama tíma og CLARA) var innt af hendi með 11,3 milljónum dala í reiðufé og um það bil 533.000 hlutum.“