Bandaríski lyfjaframleiðandinn Johnson & Johnson (J&J) þarf að punga út 572 milljónir dollara, eða sem nemur rúmlega 71 milljarði íslenskra króna, fyrir sinn þátt í hinum svokallaða ópíóðafaraldi sem geisað hefur um Bandaríkin. Dómur þess efnis féll nú nýlega við dómstóll í Oklahoma. J&J tilkynnti strax eftir að dómurinn féll að það hyggist áfrýja dómnum. BBC greinir frá þessu.

Umrætt mál er það fyrsta af þúsundum mála sem höfðað er gegn framleiðendum og dreifingaraðilum ópíóða lyfja sem fer fyrir dóm. Fyrr á þessu ári samdi Oklahoma við OxyContin framleiðandann Purdue Pharma um sáttargreiðslu upp á 270 milljónir dollara. Þá samdi fylkið sömuleiðis við Teva Pharmacuetical um greiðslu upp á 85 milljónir dollara.

Stefnendur hafa fylgst náið með framvindu málsins en um 2.000 málsóknir vegna ópíóðs bíða þess að fara fyrir dóm í Ohio í október, að því gefnu að aðilar nái ekki sáttum utan dómstóla.

Ópíóða lyf áttu þátt um 400.000 dauðsföllum vegna ofneyslu lyfja á árunum 1999 til 2017, samkvæmt bandaríska heilbrigðiseftirlitinu. Frá árinu 2000 hafa um 6.000 einstaklingar í Oklahoma látist vegna ofneyslu ópíóða lyfja, samkvæmt lögmönnum fylkisins.