Jóhannes Kr. Kristjánsson hefur stofnað félagið Reykjavik Media ehf. Jóhannes er margverðlaunaður blaðamaður og hefur lengi unnið í sjónvarpi meðal annars sem ritstjóri Kompáss. Í samtali við Viðskiptablaðið segist hann hafa stofnað félagið í kringum fréttaverkefni sem hann er að vinna.

„Ég ákvað í sumar að fara og verða algjörlega sjálfstæður og er að vinna að nokkrum stórum fréttaverkefnum, bæði innlendum og alþjóðlegum. Þessar fréttir verða annaðhvort í formi heimildarmynda eða fréttaskýringa,“ segir Jóhannes.

Kannski upphafið að nýjum miðli

Innlendu fréttaverkefnin eru mál sem hafa fylgt Jóhannesi undanfarin ár og snúa meðal annars að fjármálum fyrirtækja, sögum af fólki og afbrota- og glæpamálum.

„Mér finnst það spennandi tilhugsun að vinna alveg sjálfstætt. Hver veit nema þetta sé upphafið að einhverjum miðli ef rými er fyrir nýjan miðil í fréttaskýringum og styttri heimildarmyndum, annaðhvort sjálfstæðan eða í samstarfi við annan miðil á Íslandi,“ segir Jóhannes.

Hann mun vinna fréttaverkefnin næstu mánuði. Það er inni í myndinni hjá Jóhannesi að kynna verkefnin á Karolina fund á næstum vikum.