Búast má við að jólaverslun í ár verði sú mesta frá upphafi banka-, efnahags- og gjaldeyriskrísunnar sem skall á af fullum þunga árið 2008. Það ár varð mikill samdráttur í jólaverslun samanborið við „góðárið“ 2007. Í fyrra tók verslunin fyrst við sér eftir þriggja ára samdráttarskeið. Rannsóknasetur verslunarinnar við Háskólann á Bifröst (RSV) spáir enn meiri vexti í ár.

Samkvæmt spá RSV eyðir hver landsmaður 43.300 krónum í tilefni jólahátíðarinnar, sem gerir 173.200 krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Sú upphæð miðast við eyðslu umfram aðra mánuði ársins. Samtals er gert ráð fyrir að velta í smásöluverslun í nóvember og desember verði um 78 milljarðar króna. Á breytilegu verðlagi er spáð 7% aukningu milli ára eða 2,5% að raunvirði.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.