Að sögn Finns Árnasonar, forstjóra Haga, var sala í verslunum þeirra fyrir jólin með ágætum.

"Það má segja að þetta hafi verið mjög góð niðurstaða," sagði Finnur en félagið lýkur rekstrarárinu í lok febrúar.

"Almennt var verslun mjög mikil. Efnahagsástandið sýnir að það eru miklir peningar í umferð. Það kemur fram sérstaklega í dýrari vöru sem við erum að selja, rafmagnstækjum, húsgögnum, flatskjám og fleira. Einnig erum við að selja meira magn af ýmiskonar gjafavörum og leikföngum. Það er hægt að sjá ákveðna þróun í því að fólk er að eyða miklu."

Finnur sagði að það hefði sýnt sig að mjög góður vöxtur hefði verið í Smáralindinni og einnig hefðu stóru keðjurnar Hagkaup og Bónus verið að koma mjög vel út. Annars hafi báðar verslunarmiðstöðvarnar, Kringlan og Smáralind, verið að kom mjög vel út. Finnur vildi ekki gefa upp söluaukninguna í prósentuvís en sagði að aukning hefði verið í verslunum þeirra enda væri velmegun Íslendinga að skila sér á mörgum sviðum.

Hagar er verslunarfyrirtæki með starfsemi á Íslandi, í Svíþjóð og Danmörku. Undir Haga fellur rekstur Bónuss, Hagkaupa, 10-11, Skeljungs, Útilífs, Zara, Debenhams og Topshop. Samtals á félagið 81 verslun í þessum þremur löndum. Jafnframt á fyrirtækið innkaupafyrirtækið Aðföng og Grænt og vöruhótelið Hýsingu.