Jólastemningin hefst í Vínbúðunum í dag, föstudag, þegar sala hefst á jólabjór. Þá verða í það minnsta 27 tegundir af jólabjór teknar til viðskipta en að venju er mikil eftirvænting á meðal bjóráhugamanna fyrir þessari hefð. Það hefur sést á sölutölum Vínbúðarinnar enda hefur um fimmtungur af sölu jólabjóra farið á fyrstu fimm dögunum sem bjórarnir eru í sölu.

Nokkrir nýir bjórar líta dagsins ljós en þar á meðal eru þrír íslenskir auk þess sem einhverjar breytingar eru gerðar hjá sumum framleiðendum á uppskriftum jólabjóranna.

Af nýjum bjórum má nefna Thule jólabjór og reykta piparkökubjórinn Stúf frá Borg brugghúsi. Gæðingur brugghús mun svo brydda upp á Ýli í fyrsta sinn til viðbótar við jólabjórinn. Þrír bjórar eru nú fluttir inn sem ekki hafa sést áður. Einn er frá brugghúsinu Shepherd Neame á Englandi og tveir koma frá To Øl og Carlsberg í Danmörku.

Ítarlega er fjallað um jólabjórinn í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér . Eins og sjá má af myndinni hér að neðan er hægt að fræðast um hvern einasta bjór í Viðskiptablaðinu.