Jón Magnússon, þingmaður, sem verið hefur utan þingflokka síðustu vikur eftir að hafa sagt sig úr þingflokki Frjálslynda flokksins,  hefur nú gengið til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins.

Þingflokksfundur Sjálfstæðisflokksins stendur nú yfir en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins situr Jón nú þann fund.

Eftir ríkisstjórnarskiptin um síðustu mánaðamót sagði Jón sig úr þingflokki Frjálslynda flokksins en hann hefur setið á þingi fyrir flokkinn frá 2007 og var formaður þingflokksins frá því í fyrra þangað til hann sagði sig úr flokkunum fyrir í þessum mánuði.

Jón er ekki ókunnugur Sjálfstæðisflokknum en hann var áður varaþingmaður flokksins á árunum 1984 – 1988, þó með hléum. Þá var hann formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna á árunum 1977 – 1981.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú 26 þingmenn á Alþingi, en hafði 25 áður en Jón gekk til liðs við þingflokkinn.