Jón Þór Sturluson aðstoðarmaður viðskiptaráðherra sem orðaður hefur verið við stöðu forstjóra Landsvirkjunnar undanfarna daga sagðist í samtali við Viðskiptablaðið ekki hafa lagt inn umsókn.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá var Jón ekki búinn að ákveða það fyrir helgi hvort hann myndi sækja um en umsóknarfresturinn rann út síðastliðinn föstudag..

Þegar til kastanna kom ákvað hann þó að gera það ekki þó svo að starfið hafi vissulega kitlað. Jón Þór skrifaði masters- og doktorsritgerð um samkeppni á raforkumarkaði og skyldi því engan undra að hann hafi velt því fyrir sér að sækja um. Hann segir þær vangaveltur þó hafa borið of brátt að auk þess sem að hann sé ánægður í viðskiptaráðuneytinu.

„Ég er í fínu starfi.“ segir hann að endingu.

54 sóttu um stöðu forstjóra Landsvirkjunnar

Að sögn Ingimundar Sigurpálssonar stjórnarformanns Landsvirkjunnar voru það 54 aðilar sem sóttu um stöðu forstjóra Landsvirkjunnar áður en umsóknarfrestur rann út á föstudaginn.

Munu þá u.þ.b. 20 aðilar þessum 54 hafa sótt um stöðun eftir að umsóknarfresturinn var framlengdur, en upphaflega stóð til að hann rynni út 12.september.

Landsvirkjun hét umsækjendum því að birta ekki nöfn þeirra og aðspurður um hvenær von sé á að næsti forstjóri verði tilkynntur segir Ingimundur það ekki komið á hreint. Fyrir liggi að fara yfir umsóknirnar og vega þær og meta áður en ákvörðun verður tekin.