Jón Óskar Þórhallsson hefur verið ráðinn útibússtjóri Landsbankans í Vestmannaeyjum og mun hann taka við starfinu þann 1. júlí. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Frá árinu 2010 hefur Jón Óskar starfað sem fjármálastjóri hjá Umboðsmanni skuldara. Áður hefur hann gengt starfi fjármálastjóra hjá Bláa Lóninu og Opnum kerfum, auk þess að starfa hjá sýslumanninum í Vestmannaeyjum í 5 ár.

Jón Óskar er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið meistaranámi í endurskoðun við sama skóla. Hann er í sambúð með Ernu Karen Stefánsdóttur, viðskiptastjóra fyrirtækja hjá Sjóvá, og eiga þau fjóra syni.