Icelandic Water Holdings hefur samið um dreifingu á flöskuvatni undir merkjum Icelandic Glacial í Úkraínu. Það er fyrirtækið Wine Bureau í Kænugarði í Úkraínu sem dreifir vatninu í Úkraínu. Íslenska vatninu er tappað á flöskur í landi Hlíðarenda austur í Ölfusinu í nágrenni Þorlákshafnar og er þaðan flutt víða um heim.

Fram kemur í tilkynningu frá Icelandic Water Holdings að Úkraína sé sjötta landið sem bætist við á lista yfir þau lönd sem selja íslenska vatnið úr Ölfusinu. Það er nú þegar í boði víða í Asíu, Evrópu og í Bandaríkjunum. Þá er vatnið notað í snyrtivörur frá Dior.

Bandaríski drykkjavöruframleiðandinn Anheuser-Busch á 20% hlut í Icelandic Water Holdings. Aðrir hluthafar eru m.a. þeir Jón Ólafsson og sonur hans Kristján. Jón, sem á árum áður var kenndur við Skífuna, er jafnframt framkvæmdastjóri Icelandic Water Holdings.