Jónas Þór Guðmundsson, hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélags Íslands, var kjörinn formaður stjórnar Landsvirkjunar á aðalfundi í dag. Auk hans voru kjörin í stjórn þau Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður, Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, framkvæmdastýra Samfylkingarinnar og Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi Alþingismaður.

Varamenn í stjórn Landsvirkjunar voru kjörnir: Páley Borgþórsdóttir, Teitur Björn Einarsson, Ásta Björg Pálmadóttir, Skúli Helgason og Steinþór Heiðarsson.

Aðalfundurinn staðfesti skýrslu fráfarandi stjórnar og samstæðureikning fyrir liðið reikningsár. Jafnframt var samþykkt tillaga stjórnar um arðgreiðslu til eigenda að fjárhæð 1,5 milljarðar króna fyrir árið 2013.

Á aðalfundinum var Deloitte ehf. kosið endurskoðunarfyrirtæki Landsvirkjunar að fenginni tillögu Ríkisendurskoðunar, sem efndi til útboðs á endurskoðun reikninga Landsvirkjunar í mars 2014. Var niðurstaðan sú að ganga til samninga við endurskoðunarfyrirtækið Deloitte ehf.