Jón Ólafsson, fjárfestir í London, hefur ráðið bandaríska fjárfestingabankann JP Morgan til þess að hafa milligöngu um að afla þess hlutafjár sem þarf til þess að reisa nýja vatnsátöppunarverksmiðju í Þorlákshöfn. Iceland Glacial, vatnsátöppunarfyrirtæki í meirihlutaeigu feðganna Jóns Ólafssonar og Kristjáns Jónssonar, hyggst auka framleiðslu verksmiðjunnar gríðarlega og hefur félagið unnið að því að fá erlenda fjárfesta til liðs við sig.

Að sögn Jóns virðast íslenskir fjárfestar ekki vera áhugasamir um verkefnið og því er eingöngu horft til erlendra fjárfesta. Það kom fram hjá Jóni að þeir feðgar yrðu áfram með tryggan meirihluta í félaginu.

"Salan hefur gengið mjög vel og í raun margfalt betur en við áttum von á. Það er ekki spurning lengur hvort þetta tekst heldur hversu stórt þetta verður," sagði Jón í samtali við Viðskiptablaðið. Hann starfaði með JP Morgan við endurfjármögnun Norðurljósa á sínum tíma.

Í vor var gengið frá ráðningu Ragnars Birgissonar sem forstjóra fyrirtækisins en hann tók við starfinu af Patrick Racz, sem verður áfram starfandi hjá fyrirtækinu. Ragnar Aðalsteinsson hrl. er stjórnarformaður félagsins.

Félagið hefur tryggt sér 80.000 fermetra lóð í Þorlákshöfn og þar er ætlunin að reisa nýja átöppunarverksmiðju en núverandi verksmiðja getur ekki annað pöntunum. Er gert ráð fyrir að fjárfesta í nýrri verksmiðju fyrir á annan milljarð króna.