Fjárfestingarbankinn JPMorgan Chase, stærsti lánveitandinn á Wall Street, hyggst auka fjárfestingu í eigin tækni, þar á meðal í gagnaverum og skýjaþjónustu, verulega á þessu ári. Fjárfestingar bankans aukast um 30% á milli ára og eru áætlaðar um 15 milljarða dala, þar af verður 12 milljörðum dala varið í tækni. Financial Times greinir frá.

„Tólf milljarðar dala í tæknimál er undraverð tala,“ hefur FT eftir greinanda hjá Edward Jones. „Það er líklega talsvert meira en heildarfjárfesting allra fjártæknifyrirtækja í heiminum sem eru að reyna að taka fram úr þeim.“

Alls áætlar JPMorgan að útgjöld í ár muni aukast um 8% og nema tæplega 77 milljörðum dala. Ásamt aukinni fjárfestingu í tækni hefur bankinn eyrnamerkt 2,5 milljarða dala í aukinn launa- og ferðakostnað.

Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan sem hefur byggt upp orðstír fyrir kostnaðargát, tjáði greiningaraðilum að bankinn þyrfti að rífa upp budduna til þess að halda forskoti á keppinauta sína.

JPMorgan Chase greindi frá því á föstudaginn að hagnaður bankans á síðasta ári hafi numið 48,3 milljörðum dala. Hann varaði þó við því að afkoman á næstu árum yrði líklega undir markmiðum vegna framangreindra fjárfestinga í tækni og mannauði ásamt minni þóknanatekjum. Hlutabréfverð fjárfestingabankans hefur fallið um 6,4% frá því á föstudaginn.