Kári Húnfjörð Einarsson hefur verið ráðinn skólastjóri Tónlistarskóla Seltjarnarness frá 1. ágúst 2014. Kári er flestum Seltirningum að góðu kunnur þar sem hann hefur starfað við skólann sl. 24 ár og þar af aðstoðarskólastjóri sl. 17 ár. Í tilkynningu frá Seltjarnarnesbæ segir að hann hafi því átt stóran þátt í uppbyggingu skólastarfs og núverandi stöðu tónlistarskólans og Skólalúðrasveitar Seltjarnarness.

Kári hefur lokið meistaranámi í tónlistarkennslu frá Northwestern University, Illinois, USA. Í hlutverki aðstoðarskólastjóra hefur Kári starfað náið með núverandi skólastjóra skólans, Gylfa Gunnarssyni, og hefur því góða innsýn í skólastarfið, uppbyggingu þess og skipulag. Hann hefur komið að ákvarðanatökum varðandi flesta þætti starfsins og þekkir mjög vel til starfshátta.