„Þetta er æði mikið regluverk, sýnist manni. Það vill stundum verða svo að eftir því sem reglurnar eru flóknari þeim mun hnökróttari verður framkvæmdin. Á hinn bóginn er ekki einfalt að ætla sér smíða löggjöf um fiskveiðistjórnun. Ef af verður þá er ljóst að þetta eru mestu breytingar á kerfinu síðan grunnurinn að því var festur í sessi árið 1990,“ segir Karl Axelson hæstaréttarlögmaður hjá lögmannsstofunni Lex.

Lögmannsstofan hefur áður unnið lögfræðileg álit um fiskveiðistjórnunarkerfið fyrir ýmsa aðila. Þar á meðal vann það álit fyrir LÍÚ um fyrra frumvarpið í fyrravor. Í álitinu kom fram að miklir meinbugir væru á frumvarpinu, sem aldrei varð að lögum.

Ýmsar takmarkanir í frumvarpinu

Karl segir ýmis álitaefni í nýja frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var á mánudag. Um ýmsar nýjar og breyttar takmarkanir sé ræða sem óvíst er hvaða áhrif muni hafa á sjávarútvegsgeirann. Útgerðarmenn hafa gagnrýnt frumvarpið af hörku og sagt það þýða að ríkið sé að þjóðnýta útgerðina.

Karl segir helstu breytingarnar sem boðaðar eru í frumvarpinu snúa að skiptingu aflahlutdeilda í tvo flokka, en gert er ráð fyrir að ríkið hafi yfirráð yfir öðrum flokknum, og þeim nytjaleyfisssamningum sem gert er ráð fyrir að núverandi handhafar aflahlutdeildar fái. Þannig er gert ráð fyrir að strax á næsta fiskveiðiári verði þeir sem nú hafi yfir aflahlutdeildum að ráða ótímabundið að sækja um samningsleyfi hjá Fiskistofu. Gert er ráð fyrir að samningarnir verði í gildi í takmarkaðan tíma eða í 15 - 20 ár.

Mörg ákvæði eru óskýr

„Við fyrstu sýn virðist óljóst hver staðan verður eftir að samningstíma lýkur,“ segir Karl en bendir á að óvissa ríki um inntak og þýðingu ýmissa ákvæða í frumvarpinu: Þá segir hann frumvarpið gera ráð fyrir  ýmsum beinum og óbeinum takmörkunum á framsali aflahlutdeilda og óljóst hver áhrif þeirra yrðu, en til að mynda er gert ráð fyrir 3% skerðingu á framseldri aflahlutdeild og að skerðingin skuli renna í þann flokk aflahlutdeilda sem ríkið ráðstafar. Hann bendir einnig á að fyrirliggjandi frumvarp til laga um veiðigjald virðist gera ráð fyrir stóraukinni gjaldtöku og séu ýmsir óvissuþættir tengdir gjaldtökunni.

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sérstök veiðigjaldsnefnd geti samþykkt undanþágur frá álagningu hins sérstaka veiðigjalds, Þá er erfitt að meta hið sérstaka veiðigjald, útreikningarnir eru flóknir,“ segir Karl Axelsson.