Áhugi á umhverfinu og málefnum líð­ andi stundar vöktu snemma áhuga hjá Katrínu Jakobsdóttur. Ung að aldri fór hún að huga að umhverfismálum og átta ára gömul velti hún mikið fyrir sér afleiðingum kjarnorkustríðs. Það kom því eflaust ekki mörgum á óvart að hún skyldi láta til sín taka í stjórnmálum en 25 ára gömul var hún orðin formaður Ungra vinstri grænna. Ferillinn í stjórnmálum hefur verið glæsilegur en hún var varaformaður Vinstri grænna frá 2003 til 2013. Í framhaldi tók hún við sem formaður flokksins.

Nú hefur þú verið orðuð við forsetaframboð í næstu kosningum. Er það eitthvað sem þú ert að skoða?

„Nei, það eru nú ýmsir orðaðir við þetta. Mér þykir vænt um að einhver orði mig við það embætti en ég hef satt best að segja ekki hugleitt það enda, eins og ég sagði, er ég með hugann við annað verkefni og það af heilum hug. Ég hef því ekki ýtt undir þessa forsetaumræðu. Ég held það sé einfaldlega verið að máta ýmsa í þetta embætti en við getum spurt okkur hvort þetta sé tímabær umræða.“

En að lokum, ef við horfum til framtíðar, hvar sérðu sjálfa þig eftir fimm ár?

„Það hefur aldrei verið neitt plan og það er ef til vill galli. Börnin voru ekki einu sinni plönuð enda voru allir mjög hissa þegar ég varð ólétt að síðasta barni sem ráðherra. Ég hef nú hingað til sleppt því að ræða það opinberlega en við höfum mikið grínast með að við ráðum ekki einu sinni við að plana barneignir þótt við höfum einhverja hugmynd um hvernig börnin verða til. Ég held ég þurfi ekki að tileinka mér núvitundina sem er mjög í tísku núna því ég er mjög illa haldin af henni, ég er eiginlega alltaf í núinu. Ég veit stundum ekki hvar dagurinn endar. Hvað varðar markmið þá er ég samt á því, þar sem ég er fertug á næsta ári, að ég ætla að halda upp á afmælið. Ætli það sé ekki það eina sem ég er búin að plana. Hvað varðar framtíðina þá hafa stjórnmálin aldrei verið hugsuð sem ævistarf. Seinna vil ég finna mér eitthvað nýtt og spennandi að gera en hvað það verður veit ég ekki. Ég hef mikinn áhuga á menningu og öllu sem snýr að henni og ekki ólíklegt að ég verði starfandi á því sviði.“

Katrín er í ítarlegu viðtali í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .