Katrín Olga Jóhannesdóttir hefur staðfest það í samtali við Viðskiptablaðið að hún ætli að bjóða sig fram til formanns Viðskiptaráðs Íslands. Aðalfundur Viðskiptaráðs verður haldinn þann 11. febrúar nk.

Katrin Olga er nú stjórnarformaður Já ehf. og situr í stjórn Viðskiptaráðs. Ef hún næði kjöri þá væri þetta í fyrsta skipti sem kona yrði kosin formaður Viðskiptaráðs.

„Ég vil vinna í þágu góðs viðskipalífs á Íslandi,“ segir Olga. Hún segir að hún ætli ekki að gera neinar róttækar breytingar. „Það er búið að vera að vinna út frá McKinsey og maður vill sjá það halda áfram. Einföldun regluverks, fjölbreyttara rekstrar rekstrarform, fjölbreytileika í stjórnun fyrirtækja og í launamálum, launajafnrétti. Það er ýmislegt sem maður getur týnt til.“

Hreggviður Jónsson er núverandi formaður Viðskiptaráðs Íslands en hann var kjörinn formaður árið 2012. Hann er einnig stjórnarformaður Veritas Capital hf.

Hreggviður mun ekki bjóða sig aftur fram til formanns Viðskiptaráðs en samkvæmt lögum Viðskiptaráðs er formanni óheimilt að sitja lengur en fjögur ár samfleytt.