Íslandsbanka barst samþykki norska fjármálaráðuneytisins þriðjudaginn 15. mars 2005 fyrir kaupum á norska bankanum BNbank. Með samþykkinu hafa öll önnur skilyrði fyrir kaupum á BNbank, sem sett voru fram í tilboðinu, verið uppfyllt. ?Þetta er stórt skref fyrir Íslandsbanka og ég er afar ánægður með þær jákvæðu viðtökur sem við höfum fengið í Noregi, jafnt hjá fjármálayfirvöldum, viðskiptalífinu og almenningi. Kaupin á BNbank gengu afar vel og með þeim höfum við náð að skjóta rótum í Noregi. Okkar bíður það spennandi verkefni, með stjórnendum þeirra norsku félaga sem við höfum fjárfest í, að byggja upp og efla reksturinn enn frekar með því að styrkja samkeppnishæfni þeirra," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka.

Íslandsbanki mun eftir samþykki norska fjármálaráðuneytisins eignast 99,54% hlutafjár í BNbank á grunni þeirra viðskipta og samninga sem fyrir liggja. Gert er ráð fyrir að kaupverð og vaxtagreiðslur til hluthafa verði greidd seljendum í kringum 31. mars 2005.

Um leið og kaupin ganga í gegn mun Íslandsbanki leggja fram lokatilboð í samræmi við norsk verðbréfalög Tilboðið verður lagt fram af Íslandsbanka um leið og því verður við komið og innan þeirra fjögurra vikna tímamarka sem gefin eru í norskum verðbréfalögum. Þar sem Íslandsbanki mun eftir kaupin eiga yfir 90% hlutafjár í BNbank getur Íslandsbanki innkallað þá hluti sem eftir eru í BNbank í samræmi við lög um hlutafélög í Noregi. Íslandsbanki mun því samhliða lokatilboði beita innköllunarrétti sínum á þeim hlutum sem eftir standa í BNbank

Búist er við að tilboðstímabil lokatilboðsins hefjist í byrjun apríl. Auk þess er gert ráð fyrir að Íslandsbanki beiti innköllunarrétti sínum á fyrsta degi tilboðstímabilsins.