Fjárfestahópur, leiddur af Eggerti Magnússyni, formanni Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ), tilkynnti í gær um væntanleg kaup á breska knattspyrnuliðinu West Ham United fyrir 98 milljónir punda, sem samsvarar rúmlega 13 milljörðum króna.


Hópurinn, sem inniheldur einnig Björgólf Guðmundsson, stjórnarformann Landsbanka Íslands, mun tilkynna kaupin formlega í dag til kauphallarinnar í London.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka Íslands hefur unnið að viðskiptunum og mun Landsbankinn fjármagna yfirtökuna að hluta til, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Björgólfur Guðumundsson mun einnig fjármagna yfirtökuna, en fyrst um sinn mun hópurinn eignast 75% hlut í félaginu. Gert er ráð fyrir að hópurinn eignist West Ham að fullu.

Eggert mun láta af störfum sem formaður KSÍ og taka við sem stjórnarformaður West Ham. Fyrsti leikurinn undir stjórn Eggerts verður á móti Everton á sunnudaginn næstkomandi, en félagið tapaði fyrir Chelsea um helgina á heimavelli.