Enn orða breskir fjölmiðlar Kaupþing banka við millistór verðbréfafyrirtæki í Bretlandi, en bankinn er nú talinn hafa áhuga á að kaupa Seymour Pierce, segir í frétt The Daily Mail.

Bankinn var bendlaður við Seymour Pierce í byrjun júlí og hefur margoft verið orðaður við svipuð fyrirtæki í Bretlandi.

Hins vegar hefur stjórnarformaður Seymour Pierce, Keith Harris, neitað því að fyrirtækið sé til sölu og Kaupþing hefur ákveðið að stofna sjálfstæða verðbréfamiðlunareiningu innan bankans. Sérfræðingar telja því ólíklegt að Kaupþing hafi áhuga á að kaupa Seymour Pierce.

Í frétt Daily Mail segir að ástralski bankinn Macquarie Bank og bandaríski fjárfestingabankinn Bear Stearns geti einnig haft áhuga á að reyna að kaupa Seymour Pierce.

Talið er að verðmiðinn sé í kringum 150 milljónir punda, sem samsvarar 21 milljarði íslenskra króna.