*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 12. desember 2007 15:44

Kaupþing lýkur fyrsta skráningarverkefninu á aðallista Kauphallarinnar í London

Ritstjórn

Kaupþing hefur lokið sölu á fjórðungs hlut í breska fyrirtækinu New Britain Palm Oil sem skráð verður á aðallista kauphallarinnar í London þann 17. desember næst komandi.

Kaupþing Singer & Friedlander var umsjónaraðili útboðsins en þetta er fyrsta frumútboð sem bankinn sér um á aðallista kauphallarinnar í London eftir að bankinn fékk leyfi til að sjá um frumútboð, fyrr á þessu ári.

Í tilkynningu vegna skráningarinnar segir að mikil eftirspurn hafi verið eftir bréfum í New Britain Palm Oil, bæði frá fagfjárfestum á Bretlandseyjum og einnig á Íslandi og var veruleg umframeftirspurn en alls voru seldir hlutir fyrir 90 milljónir punda, eða sem nemur 11,2 milljörðum króna í útboðinu. Verð á hlut var 2,5 pund og nemur markaðsverðmæti félagsins 360 milljónum punda.

New Britain Palm Oil er rótgróið fyrirtæki í Papúa Nýju Gíneu, sem framleiðir pálmaolíu og hefur yfir sjö þúsund starfsmenn. Ræktað land í eigu félagsins er um 42 þúsund hektarar sem er ríflega þrefalt stærra svæði en Reykjavíkurborg. Félagið rekur fimm olíumyllur, hreinsunarstöð og framleiðslu á fræjum sem seld er til þriðja aðila. New Britain Palm Oil er mjög framarlega á sínu sviði og hefur það gert félaginu kleyft að selja nánast alla framleiðsluna til fyrirtækja í Evrópu, samkvæmt því sem segir í tilkynningunni.