Niðurstöðu viðræðna um hugsanleg kaup FL Group á dönsku flugfélögunum Sterling og Maersk Air er að vænta á næstu dögum en þau eru í eigu Fons eignarhaldsfélags. Engar áreiðanlegar upplýsingar hafa borist um kaupverð en á dönskum fréttavefsíðum er því haldið fram að FL Group muni greiða um 15 milljarðar kr. Fons greiddi 4 milljarða kr. fyrir Sterling en kaupverð á Mairsk Air hefur ekki verið gefið upp. Vegna gríðarlegs tapreksturs hefur því verið fleygt að seljandinn hafi jafnvel greitt Fons fyrir að taka að sér félagið segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar kemur ennfremur fram að út frá bæjardyrum FL Group kunna viðskiptin að vera áhugaverð á tvennan hátt. Annars vegar sem liður í að verjast aukinni samkeppni og hins vegar til að stækka markaðssvæði, auka veltu og ná mögulega samlegðaráhrifum á kostnaðarhliðinni. Samlegðaráhrifin gætu verið talsverð á tekjuhliðinni þar sem að leiðakerfi Icelandair annars vegar og Sterling og Maersk Air hins vegar skarast ekki. Á kostnaðarhliðinni gæti hagræðið snúið að bættri nýtingu flugvélaflota, viðhaldi, hagstæðari samningum við birgja eins og flugvelli og eldsneytissala, samnýtingu í markaðsmálum og svo framvegis.

Hugsanlegt kaupverð á Sterling og Maersk Air tæki mið af fyrrnefndum atriðum, þ.e. hagræðinu við að koma í veg fyrir skaðleg áhrif aukinnar samkeppni og mögulegum jákvæðum samlegðaráhrifum en ein og sér hafa dönsku félögin tvö skilað tapi á undanförnum misserum. Ekki liggja fyrir sögulegar tölur um framlegð (EBITDAR, EBITDA eða EBIT) hjá dönsku félögunum, hvað þá upplýsingar um skuldsetningu. Þá er erfitt fyrir utanaðkomandi að meta framtíðarþróun veltu og framlegðar án frekari upplýsinga og því er ekki gerlegt að staðhæfa um hvort að 15 ma.kr. teljist hátt verð fyrir félögin.