Launavísitalan hækkaði um tæp 24% á síðasta samningstímabili eða frá í apríl árið 2011 og fram til desember í fyrra. Þetta skilaði 7,4% kaupmáttaraukningu og er kaupmáttur nú sá sami og árið 2006. Hagfræðideild Landsbankans segir í Hagsjá sinni í dag 7,4% kaupmáttaraukningu á tveimur og hálfu ári í rauninni ekki slæma niðurstaða út af fyrir sig. Tilkostnaðurinn mætti þó vera minni. Til lengri tíma litið megi segja að um helmingi af kaupmáttarfallinu sem varð í kjölfar hrunins hafi verið náð til baka.

Þá bendir hagfræðideildin á að kaupmáttur hækkaði eilítið á síðasta ári í kjölfar samningsbundinna hækkana í febrúar og mars en hélst síðan nokkuð stöðugur það sem eftir lifði ársins og var t.d. sá sami í desember 2013 og hafði

Áhrif kjarasamninga

Þá er á það bent að kjarasamningar Samtaka atvinnulífsins og nokkurra aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands (ASÍ) frá 21. desember 2013 kváðu á um almenna hækkun launataxta um 2,8% þann 1. janúar 2014. Um helmingur félagsmanna ASÍ fékk þá hækkun og er þar að finna mestu áhrifin á launavísitöluna.

„Nú hafa verið undirritaðir kjarasamningar fyrir nær öll aðildarfélög ASÍ með 2,8% upphafshækkun launa. Komi þær hækkanir til framkvæmda má ætla að launavísitalan hækki með svipuðum hætti í næsta mánuði. Þá eru eftir kjarasamningar opinberra starfsmanna, en viðræður um þá standa nú yfir. Niðurstaða þeirra viðræðna er óviss, bæði hvað tíma og launabreytingar snertir. Fjöldi launamanna sem tekur laun samkvæmt kjarasamningum ASÍ er mun meiri og hefur sá hópur mestu áhrifin á launavísitöluna. 6,7% hækkun launa á ári er talsvert meira en gerist í nálægum ríkjum en eitt af markmiðum nýgerðra kjarasamninga virðist vera að reyna að byggja upp kaupmátt með minni launabreytingum,“ segir Hagfræðideildin.