Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office (SFO), og embætti sérstaks saksóknara framkvæmdu ítarlegar húsleitir og handtók níu manns í Reykjavík og London í morgun. Rannsóknin er á vegum SFO og snýst um innlánasöfnun Kaupþings Edge og útlán Kaupþings til Robert Tchenguiz, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Alls tóku 135 þátt í aðgerðunum ytra.

Sjö voru handteknir í London. Það voru þeir Ármann Þorvaldsson, Sigurður Einarsson, Guðni Níels Aðalsteinsson, Tchenguiz-bræður og tveir menn sem tengjast bræðrunum handteknir. Hérlendis voru Bjarki Diego og Guðmundur Þór Gunnarsson handteknir.

Hinir handteknu

Ármann Þorvaldsson er fyrrum bankastjóri Kaupþing Singer& Friedlander, Sigurður Einarsson er fyrrum stjórnarformaður Kaupþings og Guðni Níels gegndi starfi framkvæmdastjóra fjárstýringar Kaupþings.

Robert Tchenguiz skuldaði íslensku bönkunum mest allra við fall þeirra en hann var einkum í viðskiptum við Kaupþing. Alls námu skuldir hans við fall þeirra 2,18 milljörðum evra, sem samsvarar um 352 milljörðum króna á gengi krónu í dag. Í yfirlýsingu sem Robert Tchenguiz og bróðir hans Vincent sendu frá sér í dag staðfestu þeir handtökuna og lýstu yfir samstarfsvilja. Þeir segjast vissir um að þeir verði hreinsaðir af grun um misferli.

Guðmundur Þór Gunnarsson er fyrrverandi viðskiptastjóri á útlánasviði Kaupþings. Hann var viðskiptastjóri bankans gagnvart Tchenguiz-bræðrunum, að því er kemur fram á Mbl.is. Samkvæmt rannsóknarskýrslu Alþingis var Guðmundur Þór einn launahæsti starfsmaður Kaupþings fyrir hrun. Laun hans á árinu 2007 voru að meðaltali rúmar 8 milljónir á mánuði, að því er kemur fram í frétt Mbl. Bjarki Diego er fyrrum framkvæmdastjóri útlánasviðs Kaupþings.

Í samtali við Viðskiptablaðið fyrr í dag sagði upplýsingafulltrúi SFO ekki búast við að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þeim sem voru handteknir í dag. Líklegast er að þeir verði frjálsir ferða sinna að yfirheyrslum loknum.