Fyrrum viðskiptafélagi Baugsmanna og FL Group , Ole Vagner, hefur eignast þriðjungshlut í danska fasteignafélaginu Nordicom  en það er skráð í dönsku kauphöllinni.

Ole Vagner var áður forstjóri og aðaleigandi fasteignafélagsins Keops, sem nú er hluti af Landic Property en FL Group er stærsti hluthafi Landic.

Baugur Group kom inn sem stór hluthafi með Ole Vagner í Keops á sínum tíma og náið samstarf var með þeim Baugsmönnum og Ole.  Sjálfur seldi Ole sig út úr Keops fyrir um ári síðan áður en félagið rann inn í Landic Property.

Fyrir þessi kaup átti Ole 11% hlut í Nordicom  en er nú  orðinn stærsti hluthafinn í Nordicom en FL Group er þar annar stærsti hluthafinn með liðlega 20% hlut.

Talið var að Ole Vagner hygðist hætta öllum viðskiptum eftir söluna og njóta hins ljúfa lífs og aðgerðaleysis en greinilegt er að hann hefur ekki fundið sig í því hlutverki. Danskir fjölmiðlar segja Ole Vagner hafa ákaflega gott nef fyrir viðskiptum og ljóst  er að  tímasetningarnar á kaupum og sölum hjá Ole Vagner ekki algalnar: gengi fasteignafélaga í hefur hríðlækkað frá því hann seldi hlut sinn í Keops.

Fram kemur í frétt Børsen að Ole Vagner hafi greitt 424 danskar krónur fyrir hvert bréf í Nordicom en að gengi bréfanna hafi verið nær þrisvar sinnum hærra eða rúmar 1.200 danskar krónur fyrir ári síðan.