Lækningavörufyrirtækið Kerecis hefur fengið þrjá milljarða króna að láni til að fjármagna frekari vöxt félagsins við sölu á sáraroði í  Bandaríkjunum. 2,2 milljarðar króna koma frá bandaríska bankanum Silicon Valley Bank (SVB) í formi ádráttarláns en um 800 milljónir króna að mestu frá hluthöfum félagsins með breytirétti.  Miðað er við að fjármagnið dugi félaginu í 18-24 mánuði.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og stjórnarformaður Kerecis, segir aðkomu SVB að rekstri Kerecis vera mikla viðurkenningu fyrir félagið. Bankinn hefur sérhæft sig í bankaþjónustu í nýsköpunargeiranum og hefur tekið þátt í fjármögnun yfir 30 þúsund nýsköpunarfyrirtækja. Afsláttur af breytiréttinum verður 20% og mun miðast við verð í næstu hlutafjáraukningu félagsins.

Meðalvextir fjármögnunarinnar, eru 6,3%. Kerecis sótti sér síðast um 2,2 milljarða króna í gegnum hlutafjáraukningu og skuldbreytingu á breytiréttarlánum í hlutafé í mars 2019. „Við erum að vinna í því eins hratt og við getum að stækka sölunetið þannig að við náum að dekka öll Bandaríkin,“ segir Guðmundur.

Kerecis er nú með um 50 sölumenn sem dekka innan við fjórðung Bandaríkjanna og félagið hafi um 2% markaðshlutdeild.  Hann segir að félagið þurfi minnst 200 sölumenn til að ná að dekka öll Bandaríkin.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Ítarlegt viðtal við Bjarna Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra
  • Spár Seðlabankans eru dökkar en þó skárri en í vor
  • Farið yfir þróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu á síðustu fjórum árum
  • Rætt er við Marinó Örn Tryggvason, forstjóra Kviku banka, um hálfsársuppgjör bankans
  • Umfjöllun um ævintýralega hækkun hlutabréfaverðs Tesla
  • Metaðsókn er í fjallaleiðsögumennsku
  • Sesselja Ingibjörg Barðdal, nýr framkvæmdastjóri EIMS, er tekin tali
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs Óðinn skrifar um hertar aðgerðir á landamærum og ríkisútgjöld