Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, vill bjóða ráðamönnum Suður-Kóreu til viðræðna til þess að bæta samskiptin milli ríkjanna. Þetta kom fram í nýársávarpi sem Jong-un flutti fyrir þjóð sína í gegnum ríkissjónvarp landsins. BBC News greinir frá þessu.

Í ávarpi sínu sagðist einræðisherrann tilbúinn að hitta Park Geun-hye, forseta Suður-Kóreu, á fundi ef mætt yrði þeim skilyrðum sem Norður-Kórea setti fram um samskipti ríkjanna.

Ryoo Kihl-jae, ráðherra í Suður-Kóreu, bauðst til þess síðasta mánudag að halda viðræður milli ríkjanna í janúar. Ráðamenn ríkjanna hafa ekki rætt saman síðan í byrjun síðasta árs en þær viðræður náðu hins vegar skammt.