Kínverjar hafa gripið til aðgerða til þess að minnka verðbólgu sem nú mælist 4,4%, sem er það mesta sem mælst hefur í tvö ár.

Seðlabankinn í Kína hyggst hækka vexti um 0,5% til þess að slá á verðbólgu, auk þess sem bönkum í landinu verður gert að draga úr útlánum og stækka varasjóð sinn, að því er breska ríkisútvarpið BBC greindi frá í dag.

Það ætti að vera auðvelt fyrir stjórnvöld í Kína að fá banka í landinu til þess að draga úr útlánum, þar sem ríkið á næstum alla banka sem starfa í landinu.

Hins vegar er vandinn ekki síst sá að alþjóðlegir bankar hafa í miklu mæli lánað fyrirtækjum sem hafa aukið starfsemi í landinu með ýmsum hætti. Þau lán eru ekki veitt í Kína heldur utan landsins, en fjárfestingin fer beint eða óbeint inn í kínverskt hagkerfi, sem eykur enn á mesta hagvaxtarskeið nokkurs lands í sögunni. Að meðaltali hefur hagvöxturinn í Kína verið um 9%, sex árið í röð.

Ekkert hefur dregið úr hagvexti í Kína það sem af er ári, samanborið við árið á undan, og fastlega er reiknað með því að hann verði um 10% á þessu ári.