Gengi kínverskra hlutabréfa tók dýfu í nótt og hefur það ekki lækkað jafnmikið á einum degi síðan í febrúar árið 2007. BBC News greinir frá þessu.

Shanghai-vísitalan lækkaði um 8,5% og Hang Seng-vísitalan í Hong Kong lækkaði um 3,3%, en markaðsaðilar hafa áhyggjur af hægum vexti í hagkerfinu. Kínversk stjórnvöld hafa stutt við markaðinn að undanförnu en það virðist hins vegar ekki duga til.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hvatt kínversk stjórnvöld til þess að minnka afskipti sín af hlutabréfamarkaði og leyfa honum að leiðrétta sig, en þau hafa ekki reynst viljug til þess.