Stjórnvöld í Peking tilkynntu um það í vikunni að efnahagskerfi landsins væri mun stærra en fyrri mælingar yfirvalda hefðu gefið til kynna. Tilkynningin kom í kjölfar endurskoðunar hagkerfisins sem sýndi fram á að þjónustugeirinn sem er fyrst og fremst einkarekinn og þrífst vel um þessar mundir hafði verið vanmetinn. Kínverska hagstofan hækkaði mat sitt á landsframleiðslu ársins 2004 í 15,987 milljarða yuana (125,070 milljarðar króna) sem er 16,8% hærra en fyrri útreikningur sýndi.

Samkvæmt hagstofunni fór heildarstærð efnahagskerfisins fram úr stærð hagkerfis Ítalíu á síðasta ári sem gerir það að kínverska hagkerfið sjötta stærsta hagkerfi heims. Endurskoðunin sýnir einnig að hagkerfið er ekki jafn háð fjárfestingum og keyrt meira áfram á neyslu en gert hafði verið ráð fyrir en kínverskir ráðamenn hafa reynt að ýta undir slíkt.

Ein þeirra ástæðna sem gefin hefur verið fyrir endurskoðuninni er að atvinnuvegir landsins verði sífellt fjölbreyttari auk þess sem hlutur einkageirans í samgöngum, fjarskiptum, heildsölu, smásölu og matvælaiðnaði stækkar sífellt. Hagstofan sagðst mundu breyta tölum um landsframleiðslu frá 1993 miðað við hina nýju aðferðafræði sem notuð var til að endurskoða upplýsingarnar frá síðasta ári.

Endurskoðuð niðurstaða er í samræmi við væntingar en haft hafði verið eftir Song Guoqing, prófessor við Háskólann í Peking, að endurskoðunin myndu líklega ekki nægja til að fá fullnægjandi yfirlit yfir stærð efnahagskerfisins. "Einkarekin fyrirtæki munu halda áfram að gera lítið úr rekstri sínum til að komast hjá skattlagningu," sagði hann.