Mikið ber í milli í kjaradeilu undirmanna á Herjólfi og Eimskipi, sem rekur skipið. Til stendur að halda fund hjá Ríkissátasemjara á morgun en deilan er í hnút.

Undirmenn hafa gripið til aðgerða sem felast í því að í tvær vikur hafa þeir verið í yfirvinnubanni og því hefur ekki verið hægt að sigla eftir klukkan fimm á daginn. Þá hefur ekki verið siglt um helgar og ekki stendur til að sigla á rauðum dögum verði deilan enn í hnút. Þá verður ekki siglt á föstudögum.

Bæjarráð Vestmannaeyja sendi í morgun frá sér ályktun þar sem lýst er áhyggjum af stöðu mála. Í ályktuninni eru samningsaðilar hvattir til að setjast niður með sátt í huga og standa ekki upp frá borði fyrr en búið er að ná fram samkomulagi um þann ágreining sem er í kjaradeilunni.