*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 16. október 2021 18:03

Kjarasamningar reyndu á þanþol félagsins

Framkvæmdastjóri Mosfellsbakarís segir að varnarsigur hafi unnist á síðasta ári.

Ritstjórn
Systkinin Linda Björk og Hafliði Ragnarsbörn, auk Ellisifjar A. Sigurðardóttur, eiginkonu Hafliða, eru rekstraraðilar Mosfellsbakarís.
Eyþór Árnason

Félagið var stofnað af mömmu og pabba og bróður hans pabba. Það má segja að ég hafi eiginlega fæðst inn í þessa grein. Langafi minn var bakari, afi var bakari, pabbi var bakari og síðan er ég bakari líka," segir Hafliði Ragnarsson, framkvæmdastjóri Mosfellsbakarís.

Mosfellsbakarí er rekið á kennitölu frá árinu 1981 en foreldrar Hafliða stofnuðu það og ráku vel inn á þessa öld. Auk hans standa Ellisif A. Sigurðardóttir, eiginkona hans, og fjármálastjórinn Linda Björk, sem að auki er systir Hafliða, að félaginu.

„Við þrjú rekum þetta en þær bera hitann og þungann af því að stýra skútunni. Markmiðið er alltaf að vera með gott vinnuumhverfi og er það lykillinn að velgengni en það kostar. En það hefur tekist sem sést einna best á því að starfsmannaveltan, sérstaklega í framleiðslunni, er mjög lítil," segir Hafliði.

Það má segja að í fyrra hafi félagið unnið stóran varnarsigur í því árferði sem uppi var. Tekjur ársins námu tæpum 589 milljónum króna og lækkuðu um rétt rúm 3% á milli ára. Á sama tíma tókst að lækka kostnað úr 583 milljónum í 548 milljónir. Munaði þar mestu um 21 milljónar króna lækkun í vörunotkun auk 12 milljóna lækkunar á launum og launatengdum gjöldum.

„Fyrstu tveir til þrír mánuðirnir, þegar óvissan var sem mest, voru mjög skrítnir og erfiðir þar til hlutabótaleiðin kom inn. Fyrst um sinn nýttum við hana fyrir hluta starfsfólks, aðallega í framleiðslunni, meðan ástandið var að skýrast. Maður þakkar annars Guði fyrir að fá veiruna ekki inn í fyrirtækið en þegar maður horfir til baka er ótrúlegt hvað allt gekk vel miðað við það sem við þurftum að takast á við," segir Hafliði.

Það gefur auga leið að bakarí gera mikið út á hátíðir og veisluhöld. Venjan er að árið fari rólega af stað en fyrsta vertíðin skellur á með bolludeginum. Síðan fylgja fermingar, kaka ársins, ferðalangar yfir sumarmánuðina, brúðkaup og svo mætti lengi telja.

Spurningar um framtíð innanlandsiðnaðar

„Síðan grípur fólk eitthvað smotterí með sér þegar það er á leið í labbitúra eða þegar það vill gera vel við sig á morgnana. Við höfum alltaf verið meðvituð um að við erum með góða vöru sem við framleiðum sjálf frá grunni. Samtímis höfum við reynt að stilla verðlagningu í hóf en það getur verið erfið lína til að dansa á," segir Hafliði.

Undanfarið hefur reynst enn erfiðara að feta þá slóð. „Nýju kjarasamningarnir reyndu mjög á þanþol okkar í faraldrinum. Launaprósenta hjá okkur hefur hægt og rólega farið úr því að vera 40% og er nú komin yfir 50%. Það er auðvitað hollt fyrir fyrirtæki að takast á við áskoranir en þetta er farið að sníða okkur eilítið þröngan stakk og hefta þróunarstarfsemi," segir Hafliði.

Framkvæmdastjórinn bætir við að það sé ýmislegt annað sem hamli. Margt í kerfinu sé afar íþyngjandi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og geti reynst hálfgerður myllusteinn um háls þeirra. Dæmi um slíkt er kostnaðurinn sem fylgi því að fá sérfræðing til að taka félagið út í tengslum við jafnlaunavottun.

„Annað dæmi er að bráðum verðum við skylduð til að láta upplýsingar um næringargildi fylgja öllum okkar vörum. Það stefnir allt í að við þurfum að finna næringarfræðing til að reikna það út fyrir okkur. Manni finnst stundum eins og verið sé að reyna skapa störf fyrir aðra," segir Hafliði.

Í ofanálag virðist stefna í að verð á aðföngum komi til með að hækka, bæði hrávara og íhlutir fyrir framleiðsluna, sökum hærri flutningskostnaðar og aukinnar eftirspurnar.

„Það styttist í að við þurfum að spyrja okkur hvort við viljum hafa innlendan iðnað eða hvort við viljum að allt sé flutt inn. Launin hafa hækkað og ef hráefnin fara að hækka líka þá erum við ekki á góðum stað," segir Hafliði.

Félagið hafi aðlagað sig að þessu með því að halda vel á spöðunum allt árið um kring. „Við erum með mjög gott mælaborð fyrir fyrirtækið til að vita nákvæmlega hvað er í gangi hverju sinni. Við gerum félagið til að mynda upp í hverjum mánuði og þótt það sé aukavinna þá margborgar það sig. Með því móti getum við lesið mjög vel út hvað er í gangi og verið tilbúin að bregðast við ef eitthvað óvænt gerist," segir Hafliði að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.