Kjarninn miðlar ehf. tapaði 16,7 milljónum króna í fyrra, samanborið við 8,3 milljóna króna tap árið 2014. Kemur þetta fram í ársreikningi fyrirtækisins. Reikningurinn er samandreginn og kemur þar fram að rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 21,3 milljónir króna, en var neikvæð um 10,4 milljónir árið 2014.

Tap fyrir tekjuskatt nam í fyrra 20,8 milljónum króna, en árið 2014 nam tap fyrir skatt 10,3 milljónum.

Eignir fyrirtækisins um síðustu áramót námu 15,7 milljónum króna, en þar af var tekjuskattsinneign 6,2 milljónir. Í árslok 2014 námu eignir fyrirtækisins 31,9 milljónum króna, en munurinn liggur í því að handbært fé lækkaði úr 26,7 milljónum króna í 2,8 milljónir í fyrra. Á móti hækkaði tekjuskattsinneign og fastafjármunir.

Eigið fé félagsins nam um áramótin 12,6 milljónum króna og skuldir námu 3,2 milljónum króna.

Um áramótin voru eigendur Kjarnans tólf talsins:

  1. Magnús Halldórsson 14,07%
  2. Miðeind ehf. 13,41%
  3. Þórður Snær Júlíusson 12,45%
  4. Gísli Jóhann Eysteinsson 9,44%
  5. Hjalti Harðarson 9,44%
  6. Ægir Þór Eysteinsson 9,44%
  7. HG80 ehf. 8,18%
  8. Birna Anna Björnsdóttir 7,20%
  9. Fagriskógur ehf. 5,80%
  10. Ágúst Ólafur Ágústsson 4,64%
  11. Birgir Þór Harðarson. 2,96%
  12. Jónas Reynir Gunnarsson 2,96%

Í dag eru eigendurnir þessir:

  1. HG80 ehf., í eigu Hjálmars Gíslasonar, 16,55%
  2. Miðeind ehf., í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar, 15,98%
  3. Magnús Halldórsson, 13,79%
  4. Þórður Snær Júlíusson, 12,20%
  5. Birna Anna Björnsdóttir, 9,39%
  6. Hjalti Harðarson, 9,25%
  7. Milo ehf., í eigu Guðmundar Hafsteinssonar og Eddu Hafsteinsdóttur, 5,69%
  8. Fagriskógur ehf., í eigu Stefáns Hrafnkelssonar, 5,69%
  9. Ágúst Ólafur Ágústsson, 5,69%
  10. Birgir Þór Harðason, 2,9%
  11. Jónas Reynir Gunnarsson, 2,9%