Kjörsókn vegna prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík fer rólega af stað segir formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík, Sigurbjörn Magnússon, í samtali við Viðskiptablaðið.

Kjörstaðir opnuðu í gær. Alls 1.440 kusu í gær og kl. 11 í dag höfðu 1.782 kosið. Alls 19.421 er á kjörskrá.

Sigurbjörn segir að kjörsóknin sé dræmari nú miðað við kjörsókn á sama tíma í síðasta prófkjöri sjálfstæðismanna í kjördæminu.  „Við erum þrjátíu prósent undir kjörsókn miðað við síðasta prófkjör."

Hann segir þó erfitt að bera prófkjörin saman í ljósi þess að síðasta prófkjör hafi staðið yfir í lengri tíma með  „miklum bægslagangi," eins og hann orðar það.

Hann segir einnig að kjörsókn fari ekki oft yfir fimmtíu prósent af kjörskrá.

Fyrstu tölur verða væntanlega kynntar fljótlega eftir að kjörstöðum lokar kl. 18.

Dræmari kjörsókn í Kraganum

Kjörsókn í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kraganum fer líka hægt af stað. Stefán Pétursson, formaður kjörnefndar, segir kjörsóknina eilítið dræmari en síðast. Á móti komi hins vegar að veðrið hafi verið vont í morgun. Kjörsókn kunni því að aukast þegar líða tekur á daginn.

Kjörfundur hófst kl. 9 og stendur yfir til kl. 18. Fyrstu tölur verða kynntar fljótlega eftir það.