Kögun hf. hefur þann 14. október fest kaup á 32,93% hlut í Opin Kerfi Group hf. Heildareign Kögunar hf. í Opin Kerfi Group hf. í kjölfar þessara viðskipta er 68,7%. Viðskiptin fóru fram á genginu 26,8. Seljendur eru Straumur Fjárfestingarbanki hf., sem seldi alls 5,44%, Íslandsbanki hf. sem seldi alls 19,55% og Frosti Bergsson og félag tengt honum sem seldi alls 7,95%. Greitt er fyrir hlutina með reiðufé (50%) og eigin hlutum (50%) á genginu 42,8. Stjórn Kögunar hf. mun boða til hluthafafundar á næstunni og leggja fram tillögu um hækkun hlutafjár til að greiða hluta kaupverðsins.

Kögun hf. mun birta yfirtökutilboð í allt hlutafé Opin Kerfi Group hf. í samræmi við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti og reglur Kauphallar Íslands hf. Kögun hf. stefnir að því að eignast allt hlutafé í félaginu. Í kjölfar yfirtöku er stefnt að því að afskrá Opin Kerfi Group hf. úr Kauphöll Íslands.

Kaupin verða tilkynnt til Samkeppnisstofnunar í samræmi við ákvæði 3. mgr. 18. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.