*

miðvikudagur, 27. janúar 2021
Innlent 3. desember 2020 17:58

Koma á fót nýjum viðskiptahraðli

Viðskiptahraðall á sviði hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni mun líta dagsins ljós í upphafi næsta árs.

Ritstjórn
Úr ferð Orkídea.
Aðsend mynd

Viðskiptahraðall Orkídeu hefur göngu sína snemma á næsta ári. Viðskiptahraðalinn er á sviði hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni og er umsjón verkefnisins í höndum Icelandic Startups. Allt að fimm fyrirtæki verða valin til þátttöku og stendur hraðalinn yfir í tíu vikur. Frá þessu er greint í tilkynningu.

Orkídea er samstarfsverkefni sem Landsvirkjun, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóli Íslands og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ýttu úr vör í júlí síðastliðinn. Verkefnið snýst um uppbyggingu orkutengdra tækifæra framtíðarinnar á Suðurlandi. Til að mynda við matvælaframleiðslu og líftækni, sjálfbæra nýtingu auðlinda, sprotastarfsemi og að undirbúa svæði til að taka á móti orkutengdri nýsköpun.

„Viðskiptahraðallinn Startup Orkídea er einstakur vettvangur fyrir þróun nýrra viðskiptahugmynda og nýsköpunarverkefna rótgrónari fyrirtækja sem vinna að sjálfbærum lausnum á sviði hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni,“ segir í fréttatilkynningu.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir og hægt er að sækja um til 17. janúar næstkomandi á vefsíðunni startuporkidea.is

Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups:

„Okkar markmið er að samstarfið við Orkídeu verði til þess að efla enn frekar sjálfbæra verðmætasköpun, fjölga vel launuðum störfum og auka útflutning sem byggir á hugviti.“

Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun:

„Landsvirkjun hefur unnið náið með Icelandic Startups um árabil. Við komum á fót sambærilegu verkefni fyrir sjö árum þar sem áhersla var lögð á að draga fram nýjar hugmyndir í orkutengdum iðnaði. Á meðal þátttakenda voru fyrirtækin Laki Power og Keynatura sem eru í miklum blóma. Nú leggjum við áherslu á græna orkunýtingu og aukna verðmætasköpun í hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni. Í samstarfi við Orkídeu viljum við sérstaklega varpa ljósi á tækifæri sem felast í sjálfbærri orkunýtingu á Suðurlandi.“